Suzuki hljóðfæranám

Tónlistarskóli Rangæinga býður upp á tónlistarkennslu eftir Suzukiaðferðinni á píanó, blokkflautu, fiðlu og celló. Suzukiaðferðin hefur vakið athygli fyrir hvað börn sem læra eftir henni ná góðri færni á hljóðfæri sitt á unga aldri. Aðferðin byggir á hugmyndafræði Japanans Shinichi Suzuki (1898-1998) um tónlistarkennslu sem líkist sem mest því þegar börn læra móðurmál sitt. Hún er því líka oft kölluð móðurmálsaðferðin.

Suzuki þróaði sína aðferð í um tvo áratugi á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Þá var japanska þjóðin í sárum og hans markmið með sinni vinnu snéri fyrst og fremst að mannrækt, að gera hljóðfæranemandann að betri og þroskaðri einstaklingi í gengnum tónlistarnámið. 

Í Suzukináminu byrja börnin ung að læra eða um 3ja – 5 ára. Aðferðin byggir á samvinnu kennara, barns og foreldris og kemur foreldri með í tímana fyrstu árin. Í byrjun læra foreldrar grunntök hljóðfærisins og fyrstu lögin. Þeir verða þá fyrirmynd fyrir barnið sitt og geta betur sett sig í hugarheim þess þegar barnið byrjar sjálft að læra. Með því læra foreldrar að vera aðstoðarkennarar heima. Margir foreldrar sem hafa farið með börn sín í gegnum Suzukinámsegja að það hafi styrkt tengsl þess við barnið sitt.

Eitt það mikilvægasta í náminu, sem er frábrugðið hefðbundinni tónlistarkennslu, er dagleg hlustun á námsefnið. Þannig læra börnin móðurmálið sitt að þau heyra það daglega í umhverfinu. Þau fara svo að tala með því að herma eftir. Í Suzukinámi læra börnin því lengi vel lögin eftir eyra með aðstoð kennara og foreldris, en lesa ekki nóturnar. Nótnalestur hefst ca. 2 árum eftir að námið hefst, á sama hátt og börn læra fyrst að tala og læra svo seinna að lesa.

Önnur sérstaða aðferðarinnar – og líkist því þegar börn læra móðurmál sitt - er mikil endurtekning, sérstaklega í byrjun námsins og svo upprifjun seinna í náminu. Þá eru lögin sem nemendurnir eru búin að læra áður rifjuð upp og tónninn og spilamennskan fínpússuð. 

Fyrir utan einkatíma hjá kennara mæta nemendur í hóptíma aðra hverja viku þar sem unnið er með samspil, upprifjun, nótnalestur og fleira.

Að lokum, jákvæðni er í fyrirrúmi. Áherslan er á stuttar, daglegar heimaæfingar í byrjun og hrósað er fyrir hvert skref sem barnið tekur í framförum.