Saga skólans

 

Stutt ágrip af sögu Tónlistarskóla Rangæinga

Fyrir forgöngu og áhuga Björns Fr. Björnssonar f.v. sýslumanns var ákveðið að stofna tónlistarskóla í Rangárvallasýslu um áramótin 1955-1956 og var Guðmundur Gilsson sem þá var forystumaður og kennari við Tónlistarskóla Árnesinga fenginn til að taka að sér faglega stjórn og kennslu við Tónlistarskóla Rangæinga, sem til skyldi stofnað og gæfi tilefni til skipulegrar kennslu í hljóðfæraleik og tónmennt í sýslunni.

Ákveðið var að Guðmundur kæmi austur einn dag í viku (12klst) yfir vetrarmánuðina. Hófst kennsla í fyrsta sinn 19. október 1956 og var kennt á orgel , píanó og tónmennt og voru nemendur 25 talsins. Fyrsta skólaárinu lauk 1. maí 1957. Skólinn starfaði síðan með sama skólastjóra og líkum hætti en þó með fjölbreyttara hljóðfæravali til ársins 1961 eða í 5 ár og var meðalfjöldi nemenda 21. Að fenginni reynslu þótti eðlilegra að stefna hærra og með meiri fjölbreytni í verkefnum kom fram hreyfing til stofnunar Tónlistarfélags Rangæinga sem tók við rekstri skólans. Var Skúli Þórðarson formaður Tónlistarfélagsins. Tók Trúmann Christiansen skólastjóri Hvolsskóla við stjórn tónlistarskólans og rak hann með oftast einum kennara næstu árin. Var kennt í grunnskólanum og allur rekstur á hendi Trúmanns. Skólagjöld og styrkir s.s. sýslustyrkir fjármögnuðu reksturinn en það háði mjög starfseminni að erfitt var að fá menntaða kennara. Mun starfsemin af þeim sökum hafa legið niðri í 2 ár (1971-1973).

Árið 1976 varð skólinn sameign allra hreppanna í sýslunni og var rekinn af þeim samkvæmt lögum um tónlistarskóla. Árið 1976 nánar tiltekið 1. september tók Sigríður Sigurðardóttir tónmenntakennari við skólastjórn og ráðnir voru 5 kennarar að skólanum. Sigurður Haraldsson í Kirkjubæ var formaður skólanefndar í þau 11 ár sem Sigríður var skólastjóri, en á þessum árum var unnið mikið og erfitt brautryðjendastarf. Sigríður sagði starfi sínu lausu 1. september 1987 og tók Helgi Hermannsson gítarkennari þá við starfi hennar og gengdi því til 1. september 1992, en þá tók Agnes Löve píanóleikari við skólastjórastarfinu.

Skólinn var rekinn samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla (lög nr. 75 14. júlí 1985) til ársins 1989 en þá voru tónlistarskólar fluttir til sveitarfélaga (lög nr. 87 1989) og hefur Héraðsnefnd Rangæinga rekið skólann síðan og skipað 3 manna skólanefnd. Skólinn var í upphafi 7 mánaða skóli en var haustið 1993 lengdur í sjö og hálfan mánuð og frá hausti 1996 starfaði skólinn í 8 mánuði. Árið 1999 var skólinn lengdur í 9 mánaða skóla þ.e. frá 1. september – 31. maí.

1. september 1999 lét Agnes Löve af störfum sem skólastjóri en við starfi hennar tók Eyrún Jónasdóttir söngkennari við skólann, sem gengdi starfinu til vorsins 2001. Um haustið 2001 tók László Czenek við starfinu gengdi því til ársins 2014.  Skólastjóri skólans frá haustinu 2014 til 2019 var Sigríður Aðalsteinsdóttir.  Veturinn 2019 - 2020 var Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri. 

Núverandi skólastjóri er Sandra Rún Jónsdóttir en hún tók við störfum í ágúst 2020. 

Mikið og gott starf hefur verið unnið á undanförnum árum við skólann af þeim sem hafa komið að störfum við hann, mikil þróun hefur verið í hljóðfæranámi, söngkennslu, ásamt forskólakennslu sem er nú samræmd í allri sýslunni. Tónlistarskólinn kennir á nokkrum stöðum í sýslunni, þar á meðal á Laugalandi, Hellu og á Hvolsvelli. Á Laugalandi fær skólinn lánaðar kennslustofur til afnota fyrir tónlistarkennsluna, en á Hellu (Laufskálum 2) og á Hvolsvelli (Við Vallarbraut) hefur skólinn til umráða eigið húsnæði.

Reglugerð fyrir Tónlistarskóla Rangæinga

1. grein. Skólinn heitir Tónlistarskóli Rangæinga. Starfssvæði hans er Rangárvallasýsla. Skólastarfið fer fram í hinum einstöku sveitarfélögum eftir því sem nemendafjöldi gefur tilefni til og ástæður leyfa. Sveitarfélögin sjá skólanum fyrir húsnæði til kennslunnar hvert á sínum stað án þess að greiðsla komi fyrir.

2. grein. Markmiðið með rekstri skólans er að veita almenna tónlistarfræðslu og stuðla að eflingu söngs og tónlistarstarfs í héraðinu.

3. grein. Sveitarfélögin í Rangárvallasýslu reka skólann í sameiningu.

4. grein. Héraðsnefnd Rangæinga fer með æðstu stjórn skólans. Hún kýs þriggja manna skólanefnd og jafnmarga til vara. Skólanefnd skiptir með sér verkum, kýs sér formann, varaformann og ritara. Einnig kýs héraðsnefnd tvo endurskoðendur og tvo til vara. Kjörtímabil skólanefndar og endurskoðenda er sama og héraðsnefndar.

5. grein. Skólanefnd fer með málefni skólans á milli funda héraðsnefndar. Hún ræður skólastjóra í samráði við héraðsnefnd. Skólastjóri ræður kennara í samráði við skólanefnd. Héraðsnefnd getur falið utanaðkomandi aðila að sjá um bókhald og fjármálalega framkvæmdastjórn skólans, að öðru leyti fer skólastjóri með daglega stjórnun skólans og skal hann hafa samráð við skólanefnd um allar meiri háttar ákvarðanir. Skólastjóri og fulltrúi kennara hafa rétt til setu á skólanefndarfundum og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Kennarar skili skólastjóra skýrslu um kennslu sína mánaðarlega.

6. grein. Héraðsnefnd ákveður hámark kennslustunda fyrir hvert skólaár og skal það gert ekki seinna en 30. júní.

7. grein. Nemendur Tónlistarskólans greiði nemendagjöld sem skólanefnd ákveður á hverjum tíma. Þau skulu greiðast áður en kennsla hefst á hverri önn. Annan reksturskostnað skólans greiða aðildarsveitarfélögin á þann hátt að 40% kostnaðarins greiðist í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember næst á undan, en 60% kostnaðarins greiðist í hlutfalli við nemendafjölda sveitarfélaganna, þannig að tveir ½ tímar reiknast einn og samkennsla tveggja eða fleiri nemenda reiknast hlutfallslega á sama hátt. Séu greiðslur til skólans ekki inntar af hendi á tilskyldum tíma reiknast dráttarvextir á skuldina.

8. grein. Reikningsár Tónlistarskóla Rangæinga er almanaksárið. Skólanefnd gerir frumvarp að fjárhagsáætlun og leggur fyrir héraðsnefnd, skal fjárhagsáætlun afgreidd á vetrarfundi.

9. grein. Sveitarsjóðir aðildarfélaganna bera einfalda ábyrgð á skuldbindingu skólans en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúatölu samkvæmt ákvæðum 98. greinar sveitarstjórnarlaga.

10. grein. Ársreikningar skólans skulu lagðir fyrir fund héraðsnefndar eigi síðar en á vorfundi.

11. grein. Nemendatónleikar skulu haldnir í lok hvers skólaárs og oftar ef skólastjóra þykir ástæða til.

12. grein. Reglugerð þessi tekur gildi þegar Héraðsnefnd Rangæinga hefur samþykkt hana með ¾ hlutum atkvæða.