Gleðilegt nýtt ár!

Um leið og við óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs bjóðum við alla nemendur og foreldra velkomin til starfa á vorönn 2019.

Skólaárið er nú hálfnað og eftir góða uppskeru haustannar höldum við með bros á vör inní vorönnina. Tölvert hefur borist af umsóknum um nám og verður reynt að finna pláss eins og hægt er. Í sumum hljóðfærum er biðlisti og lítil von um pláss á þessu skólaári. Það á t.d. við um fiðlu og harmóníku. Við getum helst tekið við nemendum í þverflautunám.

Framundan næstu vikurnar er hefðbundin kennsla en þegar líða fer á febrúar hefjast nemendatónleikar. Tónlistarkennarar munu ákveða dagsetningar sinna tónleika á allra næstu vikum.

Foreldravika verður vikuna 18. - 22. febrúar. Þá eru foreldrar boðnir sérstaklega í tíma til barnanna sinna og geta rætt við kennara um námsmarkmið vetrarins og tekið stöðuna á mætingu og ástundun. Við minnum þó á að foreldrar geta alltaf haft samband við tónlistarkennara eða skólastjóra ef spurningar vakna.